17.10.2010 | 15:07
Síraksbók 6 kafli
5Fögur orð fjölga vinum
og ómþýtt mál vekur vinsemd fleiri.
6 Kunningsskap við marga skaltu halda
en veit einum af þúsundi trúnað þinn allan.
7 Vin skaltu reyna viljir þú vin eiga
og ver eigi fljótur til að veita honum trúnað.
8 Margur er vinur þegar honum hentar
en er hvergi nærri þegar að sverfur.
9 Aðrir eru þeir vinir sem í óvini breytast
og gera þér hneisu með því að ljóstra upp hvað olli.
10 Margur er vinur er þú býður til veislu
en er hvergi nærri þegar að sverfur.
11 Þegar þér vegnar vel er hann sem hugur þinn
og segir þjónum þínum til.
12 En gerist þér mótdrægt snýst hann gegn þér
og fer í felur sjái hann þig nálgast.
13 Hald þig fjarri fjandmönnum þínum
og vertu á varðbergi gagnvart vinum.
14 Traustur vinur er örugg vörn,
finnir þú slíkan áttu fjársjóð fundinn.
15 Traustur vinur er verðmætari öllu,
á engan kvarða fæst gildi hans metið.
16 Traustur vinur er sem ódáinsdrykkur,
sá sem Drottin óttast mun slíkan finna.
17 Sá sem óttast Drottin vandar val vina,
hann heldur sér að slíkum sem honum sjálfum líkjast.
síraksbók 6. 5-17
tekið af mbl.is
http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=124306
grein frá sunnudeginum 6 febrúar 1994
Þessi biblíurit hafa verið í helgiritasafni kristinnar kirkju frá því í frumkristni. Apokrýfu bækurnar voru í íslenskum Biblíuútgáfum allt frá Guðbrandsbiblíu 1584 til útgáfunnar 1859, að undanskilinni Biblíu sem Ebeneser Henderson dreifði hér á landi 1813.
Apokrýfu bækurnar urðu flestar til á tveimur síðustu öldunum fyrir Krists burð og spanna tímann sem leið frá ritun Gamla testamentisins og til upphafs þeirra atburða sem Nýja testamentið greinir frá.
Bækurnar voru ekki hafðar með í hinu hebreska Gamla testamenti gyðinga og fengu því viðurnefnið "hinar huldu bækur" eða apokrýfur. Þótt gyðingar hafi ekki haft þessar bækur í sínum helgiritum voru þær teknar með í hinni grísku þýðingu Gamla testamentisins, sem kölluð hefur verið Sjötíumannaþýðingin. Sú þýðing var Biblía kristinnar kirkju þegar hún varð til og telja margar kirkjudeildir, meðal annars bæði sú grísk-kaþólska og rómversk-kaþólska, apokrýfu bækurnar til helgirita sinna.
Góðar og nytsamar
Guðfræðingar siðbótatímans leituðu í ríkara mæli en áður hafði verið gert til hebreska Gamla testamentisins. Spurningar vöknuðu um hvort ritin sem gyðingar höfnuðu ættu að njóta sömu stöðu og þau sem þeir samþykktu. Marteinn Lúther skipaði apokrýfu bókunum milli testamentanna í þýðingu sinni og taldi hann þær góðar og nytsamar til lesturs, en ekki jafngildar öðrum ritum Biblíunnar. Siðbótarmaðurinn Kalvin tók enn dýpra í árinni og úthýsti bókunum með öllu. Það voru einmitt sjónarmið fylgismanna Kalvins og skoðanabræðra þeirra sem náðu yfirhöndinni í Hinu breska og erlenda biblíufélagi á síðustu öld. Félagið styrkti ekki biblíuútgáfur ef apokrýfu bækurnar voru þar innan spjalda.
Biblían verður almenningseign
Biblían var fágæt og í fárra eigu hér á landi fyrstu aldirnar eftir að hún var þýdd á íslensku. Guðbrandsbiblía kostaði kýrverð og einungis stöndugar kirkjur og höfðingjar áttu Biblíu. Þetta breyttist þegar Ebeneser Henderson kom hingað til lands fyrir tilstilli Hins breska og erlenda biblíufélags 1813 og dreifði ódýrum Biblíum á íslensku. Frá því greinir í ævisögu Hendersons að fólk hafi þyrst eftir að eignast bækurnar og átti koma Hendersons ríkan þátt í að Biblían varð almenningseign hér á landi. Í kjölfar komu hans var Hið íslenska Biblíufélag stofnað 1815 í þeim tilgangi að gefa út Biblíuna og dreifa henni sem víðast. Fyrstu útgáfur félagsins komu út 1841 og 1859 og innihéldu báðar apokrýfu bækurnar. Félagið reyndist þess ekki megnugt að halda biblíuútgáfunni áfram óstutt og leitaði styrks hjá Breska og erlenda biblíufélaginu. Félagið samþykkti að veita HíB stuðning til biblíuútgáfu með því skilyrði að apokrýfu bækurnar yrðu ekki hafðar með. Íslenska biblíufélagið var fjárhagslega aðþrengt og gekk að skilmálunum.
Ekki voru allir biblíuunnendur ánægðir með þennan ráðahag og þegar leið að 100 ára afmæli HíB 1915 samþykkti stjórn þess að gefa apokrýfu bækurnar út í sérprenti. Hófust þeir Þórhallur Bjarnarson biskup og prófessor Haraldur Níelsson handa við þýðinguna, sem prestaskólakennararnir Sigurður P. Sívertsen og Ásmundur Guðmundsson, síðar biskup luku. Ekki tókst að gefa bókina út á afmælinu og kom hún ekki fyrir sjónir lesenda fyrr en 1931. Þessi útgáfa er löngu uppgengin.
Ný þýðing
Árið 1981 kom út 10. útgáfa Biblíunnar á íslensku og án apokrýfu bókanna. Í þessari útgáfu voru guðspjöllin og Postulasagan í nýrri þýðingu en önnur rit Nýja testamentisins endurskoðuð og Gamla testamentið yfirfarið. Í upphafi var ráðgert að apokrýfu bækurnar yrðu með í þeirri útgáfu, en af því gat ekki orðið. Blaðsíðutal þeirrar biblíuútgáfu, sem og tilvitnanakerfi, var þó þannig úr garði gert að úr því mætti auðveldlega bæta síðar.
Stjórn Hins íslenska Biblíufélags ákvað 1986 að ráðast í nýja þýðingu apokrýfu bóka Gamla testamentisins. Séra Árna Bergi Sigurbjörnssyni og Jóni Sveinbjörnssyni prófessor var falið að undirbúa þýðinguna úr grísku. Unnu þeir báðir að verkinu í fyrstu en það færðist síðar æ meir á herðar séra Árna Bergi, en að þýðingunni vann hann í samvinnu við prófessor Jón. Á síðari stigum var dr. Guðrún Kvaran ráðin til ráðuneytis um málfar. "Þýðingin byggir á þeirri vönduðustu gagnrýnu textaútgáfu sem völ er á, hinni svonefndu Göttingen Septuagintu. Gagnrýnin textaútgáfa byggir á nákvæmri rannsókn á handritum og eru öll þekkt frávik þar tilgreind. Septuaginta, Sjötíumannaþýðingin, er heiti þýðingar Gamla testamentisins á grísku," segir séra Árni Bergur.
Þýðing í frístundum
Séra Árni Bergur er sóknarprestur í Ásprestakalli í Reykjavík og hefur unnið að þýðingunni í hjáverkum. Auk þess hefur hann ritað formála að öllum bókunum og samið neðanmálskýringar.
Til að gefa hugmynd um umfang verksins má nefna að bókin samsvarar að stærð hlutum Nýja testamentisins. Séra Árni Bergur ber ekki á móti því að verkið hafi verið umfangsmikil viðbót við annasama prestsþjónustu, en honum þótti verkið ljúft og fannst hvíld frá daglegu amstri að vinna við þýðinguna. Hann var heldur ekki alls ókunnugur efninu. "Ég þekkti apokrýfu bækurnar ágætlega frá námsárunum. Í guðfræðináminu lagði ég mikla áherslu á grísku og í framhaldsnámi í nýja testamentisfræðum komu apokrýfu bækurnar við sögu. Þær gefa mynd af trúarlífi gyðinga og þróun trúarhugmynda ásamt því að varpa ljósi á margt í boðskap Nýja testamentisins. Bækurnar eru bæði söguleg og kenningarleg brú milli testamentanna."
Sú sérútgáfa apokrýfu bókanna sem nú kemur út hefur þau sömu rit að geyma og ávallt hafa verið í íslenskum Biblíum á fyrri tíð. Ritin heita Júdítarbók, Tóbítsbók, Esterarbók, Speki Salómons, Speki Jesú Sírakssonar (Síraksbók), Barúksbók, Bréf Jeremía, Viðaukar við Daníelsbók, Fyrsta Makkabeabók, Önnur Makkabeabók og Bæn Manasse.
Fyrsta Makkabeabók og hluti annarar Makkabeabókar var meðal fyrstu bóka ritningarinnar sem þýddar voru á norræna tungu og voru í hinu forna Stjórnarhandriti. Þótt bækurnar væru ekki í síðari íslenskum Biblíuútgáfum frá 1866 er tíðum til þeirra vitnað. Séra Árni Bergur segir að meðal annars í Handbók kirkjunnar, sem var í notkun frá 1931 til 1981, hafi verið að finna texta úr apokrýfu bókunum.
Spekiritin heilla
En hvaða rit skyldu þýðandanum vera hugleiknust? "Það eru spekiritin, Síraksbók, sem frá því í fornöld hefur verið nefnd Kirkjunnar bók (Ecclesiasticus), og Speki Salómons. Þessar bækur eru skyldar um sumt, nálgast viðfangsefnið hvor með sínum hætti. Maður sér greinileg grísk áhrif í báðum bókunum, einkum í Speki Salómons en hún er samin á grísku á 1. öld f.Kr. Síraksbók er skyldari öðrum spekiritum Gamla testamentisins, svo sem Orðskviðum Salómons. Jesú ben Sírak var uppi á fyrrihluta 2. aldar f.Kr. og ritaði bókina á hebresku. Sonarsonur hans þýddi hana á grísku 132 f.Kr. eins og hann segir frá í merkum formála að þýðingu sinni. Það er líka merkilegt að höfundar þessara bóka hafa báðir tileinkað þær löngu gengnum trúarhetjum og þannig eru nöfnin tilkomin."
Árna Bergur telur æskilegt að í framtíðinni verði boðið upp á íslenska Biblíu þar sem apokrýfu bækurnar verða innan spjalda. "Fyrir því eru sögulegar ástæður og svo er það samkirkjuleg viðleitni að hafa trúarbók kristinna manna sem áþekkasta að umfangi, hvar sem er í heiminum."
Á vegum Hins íslenska Biblíufélags er nú unnið að nýrri heildarþýðingu á Gamla testamentinu. Stefnt er að nýrri biblíuútgáfu, þeirri 11. á íslensku, árið 2000 í tilefni 1.000 ára kristnitökuafmælis.
Morgunblaðið/Kristinn
Séra Árni Bergur Sigurbjörnsson þýddi apokrýfar bækur Gamla testamentisins sem Hið íslenska Biblíufélag hefur gefið út.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.10.2010 | 13:34
Ef þú ert hundaeigandi - þá er þetta fyrir þig
Þegar ég var hvolpur, skemmti ég þér með hvolpalátum og fékk þig til að hlæja. Þú kallaðir mig barnið þitt, og þrátt fyrir nokkra nagaða skó og ónýta púða, varð ég besti vinur þinn. Í hvert skipti sem ég var óþekkur, hristir þú höfuðið og spurðir ,,hvernig gastu gert þetta?"- en svo brostir þú og veltir mér á bakið til að klóra mér á maganum. Að gera mig húsvanann tók aðeins lengri tíma en það átti að gera, því þú varst svo upptekinn, en við unnum að því saman. ![]() Ég man þær nætur þegar ég kúrði hjá þér uppi í rúmi og hlustaði á játningar þínar og leynda drauma, og ég hélt að lífið gæti ekki verið fullkomnara. Við fórum í langa göngutúra og skokkuðum í almenningsgarðinum, bíltúrar, keyptum ís (ég fékk aðeins að borða brauðformið því þú sagðir að ís væri ekki góður fyrir hunda), og ég lagði mig í sólinni og beið eftir því að þú kæmir heim í lok dagsins. Smám saman fórst þú að vera meira í vinnunni og eyða meiri tíma í starfsframa þinn, og meiri tíma í að leita þér að maka. Ég beið eftir þér þolinmóður og huggaði þig í ástarsorgum og vonbrigðum, skammaði þig aldrei fyrir lélegar ákvarðanir, og hoppaði af gleði í hvert skipti sem þú komst heim og þegar þú varðst ástfanginn. Hún, sem er nú konan þín, er ekki hundamanneskja. Samt bauð ég hana velkomna inn á heimili okkar, reyndi að sýna henni ástúð og hlýddi henni. Ég var ánægður vegna þess að þú varst ánægður. Svo komu börnin og ég var alveg jafn spenntur og þú. Ég var agndofa yfir því hvað þau voru bleik, hvernig þau lyktuðu, og ég vildi hugsa um þau eins og þau væru mín eigin. En hún og þú höfðu áhyggjur af að ég gæti meitt þau, og ég eyddi mest öllum tíma mínum lokaður inni í öðru herbergi eða í hundabúri. Mikið langaði mig til að elska þau en ég varð ,,fangi ástarinnar." ![]() Þegar þau stækkuðu varð ég vinur þeirra. Þau hengju í feldinum mínum og toguðu sig upp á völtum fótum, potuðu í augun á mér, grandskoðuðu eyrun mín, og kysstu mig á trýnið. Ég elskaði allt í sambandi við þau og snertingu þeirra, því þín snerting var svo sjaldgæf núorðið, og ég hefði varið þau með lífi mínu ef ég hefði þurft þess. Ég laumaðist upp í rúmið þeirra og hlustaði á áhyggjur þeirra og leynda drauma, og við biðum saman eftir að heyra í bílnum þínum í innkeyrslunni. Einu sinni var það svo að ef fólk spurðir hvort þú ættir hund, þá sýndir þú þeim mynd af mér sem þú varst með í veskinu þínu og sagðir sögur af mér. Síðustu ár svaraðir þú bara ,,já og breyttir um umræðuefni. Ég breyttist frá ,,hundinum þínum" í ,,bara hundur", og allur kostnaður varðandi mig fór í taugarnar á þér. Nú bauðst þér ný vinna í annarri borg, og þú og þau fluttuð í íbúð þar sem ekki má vera með gæludýr. Þú tókst rétta ákvörðun fyrir ,,fjölskyldu" þína, en einu sinni var ég eina fjölskylda þín. Ég var yfirspenntur yfir bíltúrnum þangað til við komum að dýraathvarfinu. Það lyktaði af hundum og köttum, af ótta og vonleysi. Þú fylltir út eyðublöð og sagðir ,,Ég veit að þið finnið gott heimili fyrir hann". Þau andvörpuðu og gáfu þér vonleysislegt augnaráð. Þau vita hvað bíður miðaldra hunds, jafnvel þó hann sé með ættbók. Þú varðst af rífa son þinn lausan frá hálsólinni minni á meðan hann hrópaði ,,nei pabbi, gerðu það! Ekki láta þau taka hundinn minn!" Og ég hafði áhyggjur af honum, og hvaða lexíur þú hafðir kennt honum um vináttu og tryggð, um ást og ábyrgð, og um virðingu fyrir öllu lífi. Þú kvaddir mig með klappi á kollinn, forðaðist að horfa í augun á mér, og kurteisislega afþakkaðir að taka hálsólina mína og tauminn með þér. Þú hafðir takmarkaðan tíma og það átti einnig við um mig núna. Eftir að þú fórst sögðu konurnar tvær að þú hefðir líklega vitað fyrir nokkrum mánuðum að þú þyrftir að flytja en reyndir ekkert til að finna gott heimili handa mér. Þær hristu höfuðið og sögðu ,,hvernig gastu gert þetta?" ![]() Þær reyna að sinna okkur hérna í athvarfinu eftir bestu getu, en það er alltaf mikið að gera. Þær gefa okkur að borða, auðvitað, en ég missti matarlystina fyrir mörgum dögum. Í fyrstu, í hvert skipti sem einhver fór framhjá búrinu mínu, hljóp ég að hurðinni og vonaði að það væri þú, að þú hefðir skipt um skoðun, að þetta væri allt saman slæmur draumur... eða ég vonaði að þetta væri að minnsta kosti einhver sem stæði ekki á sama og myndi kannski bjarga mér. Þegar ég sá að ég gat ekki keppt við litlu hvolpana, sem vissu ekkert hver örlög þeirra yrðu, bakkaði ég aftur í eitt hornið og beið. Ég heyrði fótatak hennar þar sem hún kom að sækja mig í lok dagsins, og ég rölti við hliðina á henni inn ganginn inn í aðskilið herbergi. Óþægilega hljótt herbergi. Hún setti mig upp á borð og nuddaði á mér eyrun og sagði mér að hafa ekki áhyggjur. Hjarta mitt barðist ótt og títt af kvíða um hvað myndi gerast, en ég fann líka fyrir smá létti. Takmarkaður tími fanga ástarinnar var búinn. Eins og ég er að eðlisfari, þá hafði ég meiri áhyggjur af henni. Byrðin sem hún þarf að bera, og ég veit það, á sama hátt og ég þekkti hvert geðbrigði þitt. Hún setti varlega æðaklemmu á framlöppina mína og tár rann niður kinn hennar. Ég sleikti hönd hennar á sama hátt og ég gerði þegar ég reyndi að hughreysta þig fyrir mörgum árum. Hún stakk nálinni varlega í æðina mína. Þegar ég fann stunguna og kaldann vökvann æða í gegnum líkama minn, lagðist ég syfjaður niður og umlaði ,,Hvernig gastu gert þetta?" Hún sagði ,,mér þykir þetta svo leitt," kannski vegna þess að hún skyldi hundamálið mitt. Hún faðmaði mig og útskýrði í fljótu bragði að það væri hennar vinna að sjá til þess að ég færi á betri stað, á stað þar sem ég væri ekki hunsaður, misþyrmt eða yfirgefinn, eða þyrfti að verja mig, stað þar sem er ást og ljós, staður sem er svo mikið frábrugðinn þessari jörð. Með síðustu orku minni reyndi ég að dilla skottinu mínu og láta hana sjá að þegar ég sagði ,,hvernig gastu gert þetta?" Þá var ég ekki að beina því að henni. Það varst þú, minn ástkæri húsbóndi, sem ég var að hugsa um. Ég mun hugsa til þín og bíða eftir þér að eilífu. Ég vona að allir sem þú kynnist í þínu lífi muni sýna þér jafn mikla tryggð og ég. Höfundur Jim Willis. | ![]() |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)