4.10.2010 | 12:18
MInningargreinar um mömmu mína
Ég var eitthvað að fletta og skoða á mbl.is og datt inn á minningargreinar og ég ákvað að skoða hvort hægt væri að fletta upp mörgum árum aftur í tímann - og það var hægt og ég datt niður á allar minningargreinarnar um hana mömmu mína - þegar hún dó þá samdi ég ljóð - eitthvað sem ég gerði mikið af á þessum árum og hér er það
Björk Aðalheiður Birkisdóttir
Elsku mamma.
Björk Aðalheiður Birkisdóttir
Elsku mamma.
Árla morguns, með brosið þitt. Færðir þú mér hlýju, hláturinn og blíðu. Í miðdaginn þú hlúðir að mér, og söngst fyrir mig vísu. Aldrei áður átti ég svo undursamlega minningu. Með sólinni og sumrinu, við áttum þig að nýju. Og hjörtun okkar slógu þá í sama takt að nýju. Móðurástin sýndi sig í blíðu og stríðu. Við sorgar- sem gleðistund studdir þú við okkur. Og færðir hamingju í heimilislífið að eilífu. Ástúðleg móðir okkar, nú færðu hina hinstu ró. Við minnumst þín ætíð með ást og hlýju. Svífðu hátt yfir skýjabreiður, yfir fjöll og hálendi. Fljúðu hátt, til þess sem þín bíður. Hvíl í friði, elsku mamma, leggstu í arma almættisins.
Þinn sonur,
Birkir.
þarna er ég 19 og nýbúinn að missa mömmu mína - gaman að eiga aðgang að minningargreinunum - rifjaði upp margar hluti um hana mömmu mína sem ég var búinn að gleyma, minningin lifir að eilífu - margar greinarnar náði ég ekki að lesa í kringum ferlið sem myndaðist þegar hún dó og það var gaman að geta loksins skoðað þær allar.
mér finnst þetta flottur viðauki hjá þeim á mbl.is - takk fyrir að halda svona vel utan um allt þetta - hrós beint til morgunblaðsins
nokkrar greinar í viðbót:
BJÖRK AÐALHEIÐUR BIRKISDÓTTIR
BJÖRK AÐALHEIÐUR BIRKISDÓTTIR
Björk Aðalheiður Birkisdóttir fæddist í Austurkoti á Vatnsleysuströnd 8. október 1956. Hún lést á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 19. febrúar síðastliðinn. Hún er dóttir hjónanna Sigrúnar Erlu Helgadóttur, f. 4.6. 1937, og Ragnars Birkis Jónssonar, f. 21.1. 1934, en þau búa í Keflavík. Systkini eru Bjarkar: Guðmundur Konráð, f. 17.8. 1958, andvana stúlka f. 25.1. 1963, Valgerður Hrefna, f. 7.11. 1964, Helga Magnea, f. 5.1. 1966. Björk átti tvo syni með fyrri manni sínum, Rúnari Þ. Þórðarsyni, Þórð Ólaf, f. 17.5. 1975, hans unnusta er Sólrún Bragadóttir, f. 21.2. 1979, og Ragnar Birkir, f. 5.8. 1978. Hinn 15.6. 1985 giftist Björk eftirlifandi eiginmanni sínum Bernódusi Alfreðssyni, f. 18.8. 1957. Þau eignuðust tvö börn; Óla Þór, f. 12.6. 1990, d. 27.3. 1991, og Guðnýju, f. 13.2. 1993. Útför Bjarkar fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag og hefst athöfnin klukkan 14.
Björk Aðalheiður Birkisdóttir
Tárin falla, titrar brá, týnast fagrir draumar. Minningin er heit og há og hennar ljúfu straumar, elsku bjarta og yndi vekur,
Björk Aðalheiður Birkisdóttir
Tárin falla, titrar brá,
týnast fagrir draumar.
Minningin er heit og há
og hennar ljúfu straumar,
elsku bjarta og yndi vekur,
ekkert hana frá mér tekur.
(Emma Hansen.) Nú þegar sál mín er í sorg og hugurinn er hjá Björk, ætla ég að losa um spennuna og láta örlítið á blað um okkar samskipti. Okkar fyrstu kynni voru þegar ég var starfsmaður á Skóladagheimilinu, en Birkir sonur Bjarkar var þar hjá mér. Björk var ákaflega sterk persóna. Hún hafði sérstaklega góða lund, skoðanir hafði hún á öllu og lét þær óspart í ljós, þó að það félli ekki öllum í geð. Hörku dugleg var hún, hvort heldur var í vinnu eða innan veggja heimilisins, ósérhlífin, og alltaf tilbúin að hjálpa öðrum. Ég lenti í hremmingum þremur dögum fyrir fermingu sonar míns fyrir fáeinum árum, þegar ráðist hafði verið í að flísaleggja stofu, gang og eldhús. Þar sem ég hafði ekki staðið í þvílíku áður, vissi ég ekki á hverju ég átti von. En þegar konan vaknaði morguninn eftir virtist sem fúinn væri allstaðar, allt var grátt og rykugt. Mér féllust hendur, hringdi í Björk og þó að hún væri með lítið barn, þá var hún komin á stundinni, með græjurnar. Þennan dag var það hún sem stjórnaði á mínum bæ, heim fór þessi elska ekki fyrr en síðla kvölds þegar allt var komið á sinn stað.
Björk hafði velferð fjölskyldu sinnar alltaf að leiðarljósi, oft talaði hún um það hversu lánsöm hún væri að eiga stóra og samheldna fjölskyldu. Það fór heldur ekki fram hjá neinum samheldnin þegar dró af henni, þá átti hún því láni að fagna að hafa skyldmenni sín hjá sér. Björk fékk líka að kynnast sorginni, þegar Óli Þór, litli drengurinn þeirra Bedda, greindist með alvarlegan hjartagalla sem dró hann, tæplega ársgamlan, til dauða. Guðný fæddist tveimur árum síðar, hún var og er mikill gleðigjafi. Í dag er þessi hnáta aðeins fimm ára, tápmikil og fjörug.
Í veikindum Bjarkar hefur Þórður sonur hennar og Solla unnusta hans reynst fjölskyldunni og Guðnýju afar vel. Það var mikill léttir fyrir Björk að hafa þau inná heimilinu og sjá hversu litla stúlkan hennar hændist að þeim.
Björk sýndi það vel í þessari baráttu sinni við þennan illvíga sjúkdóm, hvaða mann hún hafði að geyma. Ekki kvataði hún, en hafði fyrir því að finna til með öðrum.
Nú þegar komið er að kveðjustund, þá bið ég algóðan Guð að varðveita þig elsku Björk mín, um leið þakka ég samfylgdina. Þú gafst mikið og varst sannur vinur.
"...hittumst við í landinu
þangað sem fuglasöngurinn fer
þegar hann hljóðnar."
(Jökull Jakobsson.) Kristín.
Björk Aðalheiður Birkisdóttir
Björk Aðalheiður Birkisdóttir
Hvers vegna? Þessi spurning flaug í gegnum hugann þegar Erla systir tilkynnti okkur lát dóttur sinnar og oft á síðasta ári hafa þessi tvö orð, hvers vegna, verið sögð eftir að í ljós kom að Björk hafði greinst með þann sjúkdóm sem hefur lagt hana að velli, langt um aldur fram. Hvers vegna þarf nokkur manneskja að líða þær þjáningar sem Björk hefur þurft að líða sl. ár. Hvers vegna? Ég veit það ekki, en við verðum að trúa því að einhver sé tilgangurinn með þessu öllu. Björk sýndi einstakan styrk og æðruleysi í sínum veikindum, aldrei heyrði maður hana kvarta sama hversu þjáð hún var.
Mikill harmur var kveðinn að þeim hjónum, Björk og Bedda, er þau misstu litla fallega drenginn sinn hann Óla Þór aðeins 9 mánaða gamlan eftir erfið veikindi. Þá sem endranær sýndi Björk mikinn styrk. Hún stóð sterkust uppi og huggaði okkur hin.
Að hryggjast og gleðjast,
hér um fáa daga.
Að heilsast og kveðjast,
það er lífsins saga.
(P.J.B.)
Á kveðjustund renna margar minningar í gegnum hugann. T.d. er við sem litlar stelpur lékum okkur í túninu heima í Austurkoti. Þar áttum við okkar dýrabú þar sem skeljar og leggir voru í aðalhlutverki sem húsdýr. Þar bjuggum við til heilu ævintýrin og höfðum gaman af. Eða þegar sólin skein og við stóðum í kökubakstri og drullumölluðum kökur úr mold og skreyttum með blómum og létum síðan sólina baka þær fyrir okkur. Þá voru oft hlátrasköll og mikið gaman.
Eða þegar við vorum í dúkkuleik og vildum auðvitað leika okkur með sömu dúkkuna sem ekki gekk nú alltaf hljóðalaust fyrir sig, og ég hljóp inn til mömmu eitthvað pirruð, því mér gekk eitthvað illa að skilja þig, og spurði, hvernig er þetta með þessa Björk frænku mína úr Keflavík, er hún útlendingur eða hvað? Oft höfum við hlegið að þessu er við rifjuðum þetta upp.
Það voru ekki nema þrjú ár á milli okkar en samt var ég móðursystir þín, en mamma þín var farin að heiman er ég fæddist, og ég ólst upp með eintómum strákum. Þess vegna var það alltaf tilhlökkun í mínum huga er von var á ykkur í heimsókn, því ég þóttist alltaf vera stóra systir þín, þó ég léti það aldrei uppi við neinn nema þig.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(V. Briem.) En nú er komið að kveðjustund, elsku frænka mín. Hafðu hjartans þökk fyrir samfylgdina í gegnum árin. Guð blessi þig í nýjum heimkynnum. Ég veit að vel hefur verið tekið á móti þér.
Elsku Beddi, Þórður, Birkir, Guðný, Sólrún, Erla, Birkir og systkini. Ég og fjölsklyda mín biðjum Guð að gefa ykkur styrk í ykkar miklu sorg. Við eigum öll ljúfar minningar um Björk. Við skulum muna brosið hennar, hláturinn, hreinskilnina og ekki síst þann styrk sem hún bjó yfir. Öll getum við lært af því þegar á móti blæs.
Guð blessi minningu Bjarkar A. Birkisdóttur.
Bryndís Rafnsdóttir.
svona 13 árum seinna þykir mér ótrúlega gaman að lesa um hana mömmu og líka bara hlýhuginn frá öllu fólkinu í kringum okkur
Mamma var merkileg kona - eru ekki allar mömmur það
Guð blessi þig þá þínum stað
Athugasemdir
fallegt blogg ástin mín ég elska þig og er svo stolt af þér !!!
Jóna Sigurbjörg Guðmundsdóttir, 5.10.2010 kl. 03:48
takk ástin mín
Ragnar Birkir Bjarkarson, 5.10.2010 kl. 12:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.